Skip to content

Um okkur

Fjölskyldan og starfsemin

Á  Brúnastöðum búum við hjónin Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson ásamt börnunum okkar fjórum, Ríkeyju Þöll, Kristni Knerri, Ólafi Ísari og Leifi Hlé.  Auk þess dvelja hjá okkur að jafnaði þrjú fósturbörn um lengri eða skemmri tíma. Einnig dvelja hjá okkur í eitt ár í senn grænlenskir verknemar frá landbúnaðarskólanum  í Grænlandi. Allir taka virkan þátt í rekstrinum, þegar frí gefst frá námi.


Við rekum ferðaþjónustu á jörðinni, leigjum út tvö stór hús í heilu lagi auk þess að sjá um rekstur félagsheimilisins Ketiláss. Á sumrin er opinn hjá okkur lítill húsdýragarður þar sem hægt er að sjá flest íslensku húsdýrin auk annars. Við eigum flestar tegundir af íslensku húsdýrunum þ.e. geitur, kýr og kálfa, grísir, kanínur og auðvitað hesta, hunda, kisur og nokkur mismunandi afbrygði af hænum. 


Auk ferðaþjónustu stundum við sauðfjárrækt og búum með um 750 fjár, það er því fjör á haustin þegar við fáum um 2000 hausa af fjalli. Einnig eigum við um 70 geitur til mjólkurframleiðslu.


Haustið 2020 tókum við í gagnið vottaða vinnslu á bænum þar sem við gerum handverksosta úr geita- og sauðamjólk auk þess að vinna úr öðrum afurðum býlisins. Haustið 2021 opnuðum við litla sveitabúð á býlinu þar sem við seljum þessar afurðir, egg, osta og margvíslegar kjötvörur.


Við stundum líka skógrækt, höfum plantað um 70.000 plöntum í 32 hektara lands.

Bókanir Bókaðu ferðina þína

Endilega hafðu samband fyrir ógleymanlega upplifun.

+354-4671020