Ostar
Ostagerð
Við mjólkum um 55 geitur og um 30 ær á sumrin. Þessar skepnur mjólka
um 700ml – 1 l á dag, og af því verður einungis 10% að osti úr geitamjólkinni, um 20% í
sauðamjólkinni. Geitaostarnir okkar eru einstakir og engum öðrum íslenskum ostum
líkir, framleiddir úr úrvalsmjólk geitanna okkar sem ganga í fjallasal Tröllaskagans, við
ysta haf. Geiturnar okkar frá hratið frá bruggverksmiðjunni Segli á Siglufirði og taka
þannig þátt í hringrásarhagkerfinu, því annars væri hratinu fargað. Þær fá ekki áborið
hey heldur slær Jóhannes bóndi fyrir þær úthagann með ilmandi stör og hrís, mjólkin
tekur bragð af öllum þessum dásemdum. Íslenskar geitur eru á válista vegna fæðar, þær
eru einstakar á heimsvísu, upprunalegur stofn, aðlagaðar að veður-og gróðurfari
eyjarinnar okkar í gegnum aldirnar. Með því að gera verðmætar afurðir úr geitamjólkinni
þá hjálpum við til að viðhalda þessum einstaka stofni. Mjólkin út kindunum er einstök til
ostagerðar, bæði feit og próteinrík. Mjög fáir íslenskir bændur mjólka ær og við erum þau
einu sem gerum osta heima á býlinu sjálfu.
Ostarnir okkar
- Fljóti er salatostur byggður á hinum rómaða gríska fetaosti. Hann er bestur í matargerðina, hvort sem það er í salatið, ofan á pizzuna eða ofnréttina. Við seljum hann ferskan en það er einnig ljúffengt að sneiða hann niður í olíu með kryddjurtum.
- Þöll er unnin úr geita og sauðamjólk. Hann er látinn þroskast í að minnsta kosti 6 mánuði og er vel bragðsterkur.
- Hefðbundinn havarti er danskur kúamjólkurostur. Hér er unnið með sömu uppskrift en unnið með geitamjólk. Osturinn er mjög mildur og rjómakenndur. Við framleiðum hann bæði hreinan og með kryddjurtum.
- Brúnó er frekar harður og parmesan líkur. Góður í matargerð og salöt. Osturinn er lagður í bjórbað í 24 tíma. Við notum IPA bjór frá Segli brugghúsi á Siglufirði því geiturnar okkar frá hratið frá brugghúsinu. Þannig má segja að við lokum hringnum og skorpan af ostinum ber keim af humlunum. Hann er látinn þroskast í að minnsta kosti 3 mánuði en verður betri með hverjum mánuði og endist allt upp í 2 ár. Brúnó er vinsælasti okkurinn okkar og sá sem við framleiðum mest af.